Varanleg lækkun á matseðli
Verðið á veitingastaðnum Þremur frökkum hefur verið lækkað um 20 prósent eftir afmælistilboð í síðasta mánuði. Í tilefni 30 ára afmælis staðarins var gefinn 30 prósenta afsláttur í viku og viðtökurnar voru svo góðar að tilboðið var framlengt út mánuðinn. Nú hefur verið ákveðið að lækka verðið varanlega. „Við gerðum þetta á svipuðum tíma og Þórarinn [Ævarsson] í IKEA var að tala um þetta,“ segir Stefán Úlfarsson, matreiðslumeistari á Þremur frökkum, og vísar til erindis sem framkvæmdastjórinn hélt á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands um verðlagningu á íslenskum veitingastöðum.